Lífið

Solla Soulful með sumarplötu

Sólveig Þórðardóttir, eða Solla Soulful, hefur gefið út sína fyrstu plötu.
Sólveig Þórðardóttir, eða Solla Soulful, hefur gefið út sína fyrstu plötu. Mynd/GVA
Tónlistarkonan Sólveig Þórðardóttir, sem kallar sig Sollu Soulful, hefur nú gefið út sína fyrstu plötu, Open a Window.

 

Platan inniheldur lög og texta eftir hana sjálfa og má heyra í þeim áhrif frá sálartónlist, djassi og blús. Platan átti upphaflega að koma út fyrir síðustu jól en vegna þess hve seint hún kom til landsins ákvað Solla að fresta útgáfunni.

 

„Ég sé ekki eftir því. Þetta er meiri sumarplata hvort sem er,“ segir Solla, sem útskrifaðist af djass- og rokkbraut FÍH fyrir tveimur árum.  Lögin á plötunni fjalla mest um ástina og hennar fylgifiska. „Ég sem voða mikið út frá minni persónulegu reynslu. Textarnir eru bjartir og dimmir í senn. Stundum fara þeir út á ævintýralegar slóðir en meginþemað er ástin,“ segir hún.

 

En hvaðan kemur nafnið Solla Soulful? „Mér fannst nafnið Solla vera eitthvað svo einmanalegt eitt og sér. Ég hugsaði með mér hvaða nafn myndi bæði lýsa sjálfri mér og tónlistinni. Ég er „soulful“ í túlkun og tónlistin er líka undir áhrifum frá sálartónlist.“

 

Með henni á plötunni eru Ragnar Emilsson á gítar, Ingi Björn Ingason á bassa, Egill Örn Rafnsson á trommur og Kjartan Valdemarsson á píanó og Hammond. Þær Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir og Unnur Birna Björnsdóttir spila einnig á strengi í nokkrum lögum.

 

Útgáfutónleikar vegna plötunnar verða á Café Rosenberg 8. júní kl. 21.30. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×