Innlent

Efnislegar viðræður hefjast í sumar

Stefán Haukur Jóhannesson
Stefán Haukur Jóhannesson
Gert er ráð fyrir að fyrsta skrefinu í formlegum aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins (ESB) sem hófust í nóvember ljúki í júní. Fram kom í máli Stefáns Hauks Jóhannessonar, aðalsamningamanns Íslands í viðræðunum við ESB, á fundi Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA) um aðildarviðræðurnar og kosti í peningamálum í gær, að fyrsta skrefið væri mjög tæknilegt.

„Við höfum kallað þetta rýnivinnu, en hún felst í að sérfræðingar okkar rýna í og greina Evrópulöggjöfina og bera saman við okkar eigin löggjöf til þess að skilgreina nákvæmlega hvað ber í milli,“ segir Stefán Haukur, en þessi rýnivinna sé undanfari þess að hægt sé að hefja efnislegar viðræður.

„Við erum um það bil hálfnuð í þessari vinnu núna.“

Stefán Haukur segir efnislegar viðræður hefjast þegar rýnivinnunni ljúki. „Og síðan af fullum þunga eftir sumarhlé á þessu ári.“

Fram kom í máli Stefáns að erfitt væri að segja til um það hvenær viðræðum lyki og til mögulegrar aðildar gæti komið að ESB. Íslendingar réðu hraðanum í viðræðunum og segðu svo af eða á um aðildarsamning þegar hann lægi fyrir.

Stefán Haukur bendir á að þjóðaratkvæðagreiðslan þurfi nokkurn aðdraganda, svo fólk geti tekið upplýsta afstöðu til aðildarsamningsins. Verði hann staðfestur taki svo við fullgildingarferli hjá ESB sem gæti tekið eitt og hálft til tvö ár.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×