Viðskipti erlent

Olíubirgðir Saudi Arabíu ekki nægar til verðlækkanna

Samkvæmt skjölum sem WikiLeaks hefur sett á vefinn telja bandarískir embættismenn að Saudi Arabar eigi ekki nægilega miklar olíubirgðir til að halda olíuverðinu niðri. Raunar telja þeir að birgðirnar, það er óunnin olía í landinu, séu ofmetnar um 40% sem samsvarar 300 milljörðum tunna af olíu.

Fjallað er um málið í Guardian í dag. Þar kemur fram að í sendiráðsskeytum frá bandaríska sendiráðinu í Saudi Arabíu eru ráðamenn í Washington beðnir um að taka aðvaranir háttsetts embættismanns í Saudi Arabíu alvarlega.

Embættismaðurinn telur olíubirgðir landsins ofmetnar um fyrrgreint magn og segir að olíuframleiðsla Saudi Arabíu muni ná toppinum strax á næsta ári. Þar með hafi Saudi Arabar ekki möguleika á að auka framleiðslu sína enn frekar til að slá á hækkandi olíuverð í heiminum.

Þessar upplýsingar koma fram nú þegar olíuverð hefur farið yfir 100 dollara á tunnuna vegna ástandins í Mið-Austurlöndum. Sérfræðingar vænta þess að OPEC auki olíuframleiðsluna til að koma í veg fyrir frekari verðhækkanir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×