Viðskipti erlent

Mubarak gæti verið ríkasti maður í heimi

Hosni Mubarak forseti Egyptlands gæti verið ríkasti maður heimins og ætti því meiri auð en menn á borð við Carlos Slim, Bill Gates og Warren Buffett.

Í miðlum á borð við ABC News og Guardian hefur því verið haldið fram að Mubarak og fjölskylda hans eigi allt að 70 milljarða dollara eða vel yfir 8.000 milljarða kr. Til samanburðar er auður Carlos Slim metinn á 53,5 milljarða dollara og auður Bill Gates á 53 milljarða dollara.

Fjölmiðlar í Mið-Austurlöndum véfengja þessar tölur og telja að auður Mubaraks og fjölskyldu sé um 40 milljarðar dollara eða um 4.600 milljarðar kr. sem er á við þrefalda landsframleiðslu Íslands. Þessum auð hefur Mubarak safnað saman á 30 ára valdaferli sínum sem forseti Egyptalands.

Auðnum hefur forsetinn og ættingjar hans ekki safnað saman á hefðbundinn hátt heldur að mestu í gegnum mútur og spillingu. Þá hafa miklir fjármunir komið frá sérstöku viðskiptalíkani þar sem forsetinn og ættingjar hans fá 50% af hagnaði allra stærstu fyrirtækja Egyptalands.

Auður Mubaraks mun vera vel falinn og tryggur á reikningum í Sviss, Bretlandi og Bandaríkjunum. Þar að auki er hluti hans bundinn í ýmsum fasteignum víða um heiminn.

Það er ljóst að himinn og haf skilur á milli Mubaraks og almennings í Egyptalandi. Um 30 milljónir Egypta verða að komast af á um 2 dollurum á dag. Væri auði Mubaraks dreift á milli þeirra myndi hver um sig frá um 1.250 dollara í sinn hlut.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×