Erlent

Verðir konungsfjölskyldunnar seldu News of the World upplýsingar

Elísabet II, Englandsdrottning.
Elísabet II, Englandsdrottning. Mynd/AP
Að minnsta kosti tveir verðir sem höfðu það að starfi að vernda konungsfjölskylduna eru taldir hafa selt götublaðinu News of the World tengiliðabók sem innihélt allar upplýsingar um það hvernig mætti ná í hvern einasta meðlim konungsfjölskyldunnar, auk vina þeirra, starfsfélaga og starfsmanna.

Frá þessu er greint í vefriti The Guardian og kemur þar einnig fram að samkvæmt heimildum blaðsins hafi verðirnir fengið 1.000 pund fyrir bókina eða um 187 þúsund íslenskar krónur. Talið er að þær nákvæmu upplýsingar sem finna mátti í bókinni hafi gert News of the World kleift að hlera síma þeirra konungsbornu.

Í heildina er talið að News of the World hafi borgað lögreglumönnum tæpar 25 milljónir íslenskra króna fyrir upplýsingar af ýmsu tagi.

Mikið fjaðrafok hefur verið í fjölmiðlaheiminum frá því upp komst að blaðamenn sem störfuðu á News of the World hefðu stundað símahleranir, en fjölmiðlakonungurinn Rupert Murdoc tók þá ákvörðun fyrir stuttu að leggja útgáfu blaðsins niður. Vikublaðið breska kom út í síðasta skipti í gær, eftir að hafa verið starfandi í 168 ár frá stofnun þess árið 1843.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×