Viðskipti erlent

Örvænting ríkir á öllum mörkuðum

Örvænting hefur gripið um sig á öllum fjármálamörkuðum heimsins í kjölfar fréttanna í morgun um að Ítalía muni hugsanlega vera næsta fórnarlamb skuldakreppunnar í Evrópu. Hlutabréf falla í verði í kauphöllum beggja megin við Atlantshafið.

Fjárfestar hafa verið á stöðugum flótta úr ítölskum ríkisskuldabréfum frá því að markaðir opnuðu í morgun og fer verð þeirra ört lækkandi. Á sama tíma hefur skuldatryggingaálag Ítalíu rokið upp og nálgast 300 punkta. Er álagið því orðið töluvert hærra en skuldatryggingaálag Íslands sem stendur í rúmum 230 punktum.

Flóttinn úr ríkisskuldabréfunum hefur þýtt að verð á dollurum, gulli og svissneskum frönkum hefur rokið upp á móti en þetta eru hefðbundin skjól fjárfesta þegar á bjátar.

„Það er örvænting í gangi á mörkuðunum. Allir kasta frá sér spilum sem þeir eiga í Ítalíu," segir Christian Hansen hjá Norne Securities í samtali við vefsíðuna e24.no.

Fyrir utan að skuldatryggingaálag á ítalska ríkið hefur hækkað hefur það einnig rokið upp á ítölsku bankanna. Hansen segir að fjárfestar setji nú spurningamerki við ítalska bankageirann í heild sinni.

Úrvalsvísitölur í helstu kauphöllum Evrópu hafa fallið um 1-2% frá því í morgun. Sömu sögu er að segja í Bandaríkjunum. Þar féll Dow Jones vísitala um 1% og Nasdag og S&P 500 um 1,2% á fyrstu 15 mínútunum eftir opnun markaðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×