Enski boltinn

Woodgate semur við Stoke til eins árs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Woodgate í baráttu við Andy Johnson
Woodgate í baráttu við Andy Johnson Nordic Photos/AFP
Enski varnarmaðurinn Jonathan Woodgate hefur skrifað undir eins árs samning við Stoke City. Woodgate hefur glímt við erfið meiðsli undanfarin ár en samningur hans við Tottenham var ekki endurnýjaður.

Miklar vonir voru bundnar við varnarmanninn 31 ára á sínum tíma. Hann var keyptur til Real Madrid frá Newcstle en gekk illa að vinna sér sæti í spænska liðinu. Meiðsli áttu sinn þátt í því. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir Real 516 dögum eftir að hann gekk til liðs við félagið. Í leiknum skoraði hann sjálfsmark og var rekinn af velli.

Hann fór á lán til Middlesboro þangað sem hann var síðar keyptur. Undanfarin þrjú ár hefur hann leikið með Tottenham. Hann skoraði sigurmark Tottenham í úrslitum deildabikarsins árið 2008 og tryggði liðinu sinn fyrsta bikar í tæpan áratug.

„Hann er leikmaður í hæsta gæðaflokki og það hefur verið mikið fjallað um meiðslasögu hans. Við höfum hins vegar trú á því að fái hann góða umönnun hjá okkur muni hann spila leiki fyrir félagði," sagði Tony Pulis knattspyrnustjóri Stoke.

Pulis sagði að fleiri úrvalsdeildarfélög hefðu verið á höttunum eftir Woodgate og því sé mikil ánægja með að Woodgate hafi valið Stoke.

„Hann er á samning þar sem hann fær greitt fyrir þá leiki sem hann spilar. Það sýnir löngun hans til þess að koma knattspyrnuferlinum á rétt ról á nýjan leik," sagði Pulis.

Woodgate hefur aðeins spilað átta landsleiki fyrir England en reiknað var með því á sínum tíma að hann yrði framtíðarmiðvörður enska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×