Enski boltinn

Modric segir að stjórnarformaður Tottenham hafi beitt hótunum

Króatíski landsliðsmaðurinn Luka Modric heldur því fram að David Levy  stjórnarformaður enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham hafi haft í hótunum við sig
Króatíski landsliðsmaðurinn Luka Modric heldur því fram að David Levy stjórnarformaður enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham hafi haft í hótunum við sig Nordic Photos/Getty Images
Króatíski landsliðsmaðurinn Luka Modric heldur því fram að David Levy  stjórnarformaður enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham hafi haft í hótunum við sig. Modric hefur lýst því yfir að hann vilji komast frá Tottenham. Levy er allt annað en ánægður með þá ákvörðun leikmannsins.  Modric segir að Levy hafi hótað því að hann fengi ekkert að spila með félaginu ef hann sætti sig ekki við þá ákvörðun félagsins að setja hann ekki á sölulista. 

Modric, sem er 25 ára gamall miðjumaður, hefur verið orðaður við Chelsea. Talið er að Chelsea hafi boðið um 22 milljónir punda í leikmanninn eða sem nemur um 4 milljörðum kr. Modric segir í viðtali við króatíska dagblaðið Sportske Novosti að hann hafi gert „heiðursmannasamkomulag“ við Levy þegar hann skrifaði undir nýjan samning við Tottenham.

„Á þeim tíma ræddi ég við Levy um þann möguleika að ef stærra félag vildi kaupa mig þá myndum við skoða það og vinna úr því með opnum huga.  Í dag vill Levy ekki ræða við mig, og hann segir að það komi ekki til greina að ég geti farið frá Tottenham. Hann hefur hótað mér og sagt að ég verði uppi í stúku eða á varamannabekknum ef ég sætti mig ekki við ákvörðun félagsins,“  sagði Modric en hann vonast til þess að félagið nái samkomulagi við Chelsea og það er greinilegt að Modric hefur engan áhuga á að leika fyrir Tottenham á næstu leiktíð.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×