Enski boltinn

Wenger er vongóður um að halda Fabregas og Nasri

Arsene Wenger ræðir hér við dómara í leik í ensku úrvalsdeildinni.
Arsene Wenger ræðir hér við dómara í leik í ensku úrvalsdeildinni. Nordic Photos/Getty Images
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, er vongóður um að Cesc Fabregas og Samir Nasri verði áfram í herbúðum liðsins á næstu leiktíð. Fabregas, sem er fyrirliði Arsenal, er efstur á óskalistanum hjá Barcelona á Spáni og félögin hafa rætt um hugsanleg vistaskipti hans en kaupverðið hefur staðið í vegi fyrir því að félögin hafi komist að samkomulagi. Manchester City og Manchester United hafa bæði áhuga á að fá Nasri í sínar raðir. Franski landsliðsmaðurinn á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Arsenal og hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning.

Arsenal er í æfingaferð í Kuala Lumpur og sagði Wenger að hann væri vongóður um að Nasri og Fabregas yrðu báðir í liðinu þegar keppnistímabilið í ensku úrvalsdeildinni hefst í ágúst.  „Barcelona sagan hefur verið í gangi í mörg ár og við þurfum að ljúka þeirri sögu með einhverjum hætti með Cesc. Hann elskar félagið og við náum vonandi lendingu í þessu máli og getum farið að einbeita okkur að næsta tímabili,“  sagði Wenger við Sky fréttastofuna.

Hann var að sjálfsögðu spurður um stöðuna hjá Nasri. „Ég er ávallt spurður að því hvort Nasri verði hjá okkur á næsta tímabili og ég svara því játandi. Mun hann skrifa undir nýjan samning?, ég vona það, en ég er ekki einn um að ákveða þetta,“  sagði Wenger.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×