Körfubolti

Sigurður Ingimundarson hættur með Njarðvíkurliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Ingimundarson.
Sigurður Ingimundarson.

Stjörn Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur og Sigurður Ingimundarson þjálfari karlaliðs félagsins hafa komist að þeirri sameiginlegu ákvörðun að Sigurður hætti þjálfun liðsins. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Nýliðar Hauka slógu Njarðvíkinga út úr átta liða úrslitum Powerade-bikarsins í gærkvöldi og það reyndist verða síðasti leikur liðsins undir stjórn Sigurðar sem hefur stýrt Njarðvíkurliðinu frá því haustið 2009.

„Ekki náðist sá árangur hjá liðinu sem Sigurður og Stjórn KKD UMFN stefndu að og því varð það ofan á að Sigurður stigi til hliðar. Stjórn deildarinnar kemur saman í kvöld til að fara yfir stöðu liðsins og hefja leit að nýjum þjálfara. Körfuknattleiksdeild UMFN þakkar Sigurði fyrir samvinnuna og óskar honum velfarnaðar í því sem hann tekur sér fyrir hendur," segir í frétt um málið á heimasíðu Njarðvíkur í kvöld.

Njarðvík hefur aðeins unnið 4 af 12 leikjum sínum í Iceland Express deild karla og er eins og er í 10. sæti aðeins tveimur stigum frá fallsæti. Liðið hefur tapað tveimur fyrstu leikjum ársins 2011 og tapaði einnig lokaleik sínum á árinu 2011.

Fyrsti leikur nýja þjálfarans verður fallbaráttuslagur á móti ÍR í Ljónagryfjunni um næstu helgi en ÍR-ingar eru í 11. sæti tveimur stigum á eftir Njarðvíkurliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×