Lífið

Retro skrifaði undir í Berlín

Meðlimir hljómsveitarinnar Retro Stefson voru fyrr í vikunni staddir í Berlín þar sem þeir skrifuðu undir útgáfusamning við Vertigo sem risinn Universal er með á sínum snærum. Fréttablaðið hefur áður greint frá því að samningur við Universal væri í bígerð og hann hefur nú verið undirritaður af hljómsveitarmeðlimum.

Samningurinn kveður á um útgáfu á plötunni Kimbabwe í Þýskalandi, Austurríki, Sviss og Austur-Evrópu. Fyrirtækið á einnig fyrsta rétt á næstu tveimur plötum sveitarinnar. Kimbabwe kemur út 6. maí og á henni verða einnig þrjú lög af fyrstu plötu Retro Stefson, Montana.

Sveitin hefur einnig gert útgáfusamning við Sony ATV til þriggja ára og þar með hefur hún gert samninga við tvo af risunum í tónlistarheiminum. Samningurinn hjálpar sveitinni við að koma verkum sínum á framfæri, meðal annars í heimi kvikmynda og sjónvarpsþátta.

Retro Stefson er þessa dagana stödd á tónleikaferðalagi um Þýskaland þar sem hún hitar upp fyrir bresku hljómsveitina The Go! Team í sex borgum. Fyrstu tónleikarnir voru í Düsseldorf á fimmtudagskvöld.

Eftir tónleikaferðina um Þýskaland verður ferðast um Mið- og Austur-Evrópu þar til tónlistarhátíðir sumarsins taka við en sveitin er bókuð víða fram á haustið.

Meðlimir Retro Stefson hafa ákveðið að flytja til Berlínar í lok mars, sem hentar þeim vel vegna komandi tónleikahalds enda er borgin miðsvæðis í Evrópu.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×