Innlent

Fólk fylgdist dolfallið með samförum steinbíta

Hrogn steinbíta eru frjóvguð inni í hrygnunni ólíkt flestum fiskum. Hængurinn fær svo það hlutverk að liggja á hrognunum. Fréttablaðið/óskar P. Friðriksson
Hrogn steinbíta eru frjóvguð inni í hrygnunni ólíkt flestum fiskum. Hængurinn fær svo það hlutverk að liggja á hrognunum. Fréttablaðið/óskar P. Friðriksson

„Það er mjög spes að verða vitni að þessu," segir Margrét Lilja Magnúsdóttir, forstöðumaður Sæheima í Vestmannaeyjum, sem fylgdist í gær með samförum steinbítspars í búri á safninu.

Á safninu eru tólf steinbítar og með parinu í búrinu voru þrír steinbítar til viðbótar og einn hlýri sem þurfti að fjarlægja þegar mökunin hófst. „Í fyrra var nefnilega hrygning og þá kom næsti steinbítur og át hrognin," útskýrir Margrét.

Mökun steinbíta er merkileg að því leyti að um innri frjóvgun er að ræða - kvendýrið hrygnir ekki fyrr en karlinn hefur frjóvgað hrognin. Í venjulegum hrognaklasa, sem að sögn Margrétar er á stærð við meðalgreipávöxt, eru mörg hundruð hrogn. Klekist þau stendur til að reyna ala seiðin í hliðarbúrum.

Karlinn verður áfram í búrinu enda sér hann um að liggja á hrognunum, líkt og tíðkast hjá sumum fiskum.

Stöðug vakt var með hrygnunni í gær en hún hafði enn ekki hrygnt í gærkvöldi.- sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×