Innlent

Ákærum vegna efnahagsbrota snarfjölgar

Tæplega sextíu mál til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra um áramót.
Tæplega sextíu mál til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra um áramót.

Ákærum hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur fjölgað verulega á milli ára, úr 21 ákæru á árinu 2007 í 62 ákærur á árinu 2010. Á árinu 2008 voru gefnar út 42 ákærur og 47 á árinu 2009. Á þessum fjórum árum eru útgefnar ákærur 172 talsins.

Þetta kemur fram í upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra.

Enn fremur segir að um áramótin 2009-2010 hafi 133 mál verið í rannsókn hjá efnahagsbrotadeild. Á árinu 2010 voru málin flest 139 og var rík áhersla lögð á að ljúka málum innan þeirra tímamarka sem mælt er fyrir um í málsmeðferðarreglum ríkissaksóknara.

Til að bregðast við þessum fjölda mála voru gerðar ýmsar skipulagsbreytingar á starfsemi deildarinnar. Lögð var rík áhersla á að fullmanna deildina en þar eru nú sautján starfsmenn, sem eru fjórir lögfræðingar, níu lögreglumenn og fjórir viðskiptamenntaðir starfsmenn með reynslu úr viðskiptalífinu. Engar fjárveitingar fengust til að fjölga starfsmönnum og var kostnaði vegna þessara breytinga mætt með frekari samdrætti í öðrum rekstri embættis ríkis­lögreglustjóra. Nýja starfsmenn þurfti að þjálfa jafnframt því að tekist var á við uppsafnaðan málahala. Í fjárlögum fyrir árið 2011 er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til eftirlitsstofnana ríkisins sem kæra mál til efnahagsbrotadeildar.

Ríkislögreglustjóra hefur verið gert að skera niður um hátt í 300 milljónir króna á árunum 2009-2011.- jss










Fleiri fréttir

Sjá meira


×