Handbolti

Anna Úrsúla: Það gekk allt upp hjá okkur í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Pjetur
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var valin maður leiksins af mótshöldurum í sigurleiknum á Þýskalandi í kvöld en hún var frábær í vörninni og fiskaði þrjú vítaköst á lokasprettinum. Anna Úrsúla var kát í viðtali við Sigurð Elvar Þórólfsson í þættinum hjá Þorsteini Joð Vilhjálmssyni á Stöð 2 Sport.

„Það gekk allt upp hjá okkur í dag. Við byrjuðum að vísu illa en ákváðum að keyra þetta í gang og klára okkur bara því það er frídagur á morgun. Það var hundrað prósent barátta í öllum og við fögnuðu öllu sem fleytti okkur langt," sagði Anna Úrsúla.

Íslenska liðið lenti 4-11 undir í upphafi leiks en gafst ekki upp og vann síðustu 43 mínútur leiksins 22-9. „Maður gefst aldrei upp og heldur alltaf áfram. Við fórnuðum okkur í þetta og náðum þessu góðum vörnum sem skiluðu okkur hraðaupphlaupum. Þetta var mjög góður leikur hjá okkur," sagði Anna Úrsúla og framundan er leikur við Kína þar sem sigur skilar liðinu í sextán liða úrslitin.

„Við hugsum allaf bara um næsta leik. Þessi leikur fór vel og við kláruðum hann í kvöld. Svo kemur þessi frídagur og eftir hann er síðan hundrað prósent einbeiting á Kínaleikinn. Þar er bara að duga eða drepast eins og alltaf," sagði Anna Úrsúla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×