Handbolti

Umfjöllun: Ísland - Þýskaland 26-20

Sigurður Elvar Þórólfsson í Santos skrifar
Mynd/Pjetur
Það hefur verið sagt um íslensk landslið að þau hagi sér oft eins og íslenska veðrið. Það er aldrei að vita hvað mun gerast næst. Íslenska kvennalandsliðið í handbolta, stelpurnar okkar, er þar engin undantekning. Í gær náði Ísland stórkostlegum úrslitum gegn stórþjóðinni Þýskalandi á HM í Santos. Ísland sigraði 26-20 í mögnuðum leik þar sem Þýskaland komst í 11-4 um miðjan fyrri hálfleik. Þá hófst lítið íslenskt eldgos í Arena Santos, og Ísland landaði mögnuðum sigri.

Eftir sigurinn í kvöld er staða Íslands í A-riðlinum með þeim hætti að Ísland á nú góða möguleika á að komast í 16-liða úrslit.

Ágúst Jóhannsson þjálfari íslenska liðsins sagði í leikslok að þetta væri einn besti leikur sem hann hefði séð hjá Íslandi. Það er engin lygi og þjálfarinn getur verið stoltur af sínu liði. Eftir erfiða byrjun fór allt í gang í varnarleiknum. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Stella Sigurðardóttir og fóru fremstar í flokki í varnarleiknum. Markverðirnir báðir, Guðný Jenný Ásmundsdóttir og Sunneva Einarsdóttir, vörðu á mikilvægum augnablikum. Í stöðunni 11-4 tók við einn besti kafli sem Ísland hefur átt fyrr eða síðar. Ísland skoraði 9 mörk gegn 1 og komst í 13-12 þegar flautað var til leikhlés.

Baráttan hélt áfram og Þjóðverjar komust yfir 18-17 þegar 13 mínútur voru eftir af leiknum. Þá tók við frábær kafli þar sem Ísland skoraði fjögur mörk í röð, 21-18. Karen Knútsdóttir skoraði næstu fjögur mörk Íslands úr vítaköstum og Þórey Rósa Stefánsdóttir gulltryggði sigurinn.

Íslenska liðið fagnaði sigrinum eins og þær hefðu unnið heimsmeistaratitilinn. Ástæða til þess að fagna og Ísland er nú í allt annarri stöðu en áður. Sigur gegn Kína á föstudaginn gulltryggir sæti í 16-liða úrslitum.

Stella: Við trúðum alltaf að þetta gæti gengið upp„Það small bara eitthvað hjá okkur og þetta lið hentar bara betur fyrir okkur. Ég held að það hafi allir hugsað að þetta væri búið þegar við vorum 11-4 undir. Við trúðum alltaf að þetta gæti gengið upp,“ sagði Stella Sigurðardóttir eftir leikinn en hún átti stórleik í vörninni.


Tengdar fréttir

Ágúst þjálfari mun hlaupa upp 20 hæðir á hótelinu í kvöld

"Ég var víst búinn að lofa því að hlaupa upp allar 20 hæðirnar á hótelinu ef stelpurnar myndu vinna. Ég mun að sjálfsögðu rúlla því upp," sagði sigurreifur þjálfari Íslands, Ágúst Þór Jóhannsson, í samtali við Sigurð Elvar Þórólfsson eftir sigurinn á Þýskalandi í kvöld. "Ég mun reyna að komast hjá því í kvöld en ég kemst tæplega upp með það."

Anna Úrsúla: Það gekk allt upp hjá okkur í dag

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var valin maður leiksins af mótshöldurum í sigurleiknum á Þýskalandi í kvöld en hún var frábær í vörninni og fiskaði þrjú vítaköst á lokasprettinum. Anna Úrsúla var kát í viðtali við Sigurð Elvar Þórólfsson í þættinum hjá Þorsteini Joð Vilhjálmssyni á Stöð 2 Sport.

Stelpurnar unnu síðustu 43 mínúturnar 22-9 - myndir

Stelpurnar okkur stigu stórt skref í átt að sextán liða úrslitunum á HM kvenna í Brasilíu eftir frábæran 26-20 sigur á Þýskalandi í kvöld. Íslenska liðinu nægir að vinna botnlið Kína í lokaleiknum til að komast í 16 liða úrslitin.

Hrafnhildur: Gaman að vera til núna

Landsliðsfyrirliðinn Hrafnhildur Ósk Skúladóttir geislaði af gleði er hún hitti Sigurð Elvar Þórólfsson að máli í Santos í kvöld. Stelpurnar okkar voru þá nýbúnir að vinna glæsilegan sigur á Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×