Viðskipti erlent

Þriðja besta ár vogunarsjóðanna í tíu ár

john paulson
john paulson
Vogunarsjóðir þénuðu minna á síðasta ári en árið 2009 samkvæmt AR tímaritinu. Það er þó engin ástæða til þess að örvænta því samanlagður hagnaður vogunarsjóðanna voru 22 milljarðar dollara.

Sá sem mest þénaði var John Paulson, sem hagnaðist um 4.9 milljarða dollara. Paulson hagnaðist meðal annars á gulli auk þess sem sjóðurinn hans sameinaðist öðrum risasjóði.

Það virðist engin kreppa ríkja hjá Paulson en árið 2007 þénaði sjóðurinn 3,7 milljarða með því að veðja á hrun fasteigna í Bandaríkjunum. Sú ákvörðun gerði Paulson heimsfrægan, alræmdan að auki.

Aðrir farsælir sjóðir voru Bridgewater Associates sem Ray Dalio stýrir. Sá sjóður þénaði 3,1 milljarða dollara.  Renaissance Technologies sem Jim Simon stýrir þénaði 2,5 milljarða.

2010 er þriðja gjöfulasta ár vogunarsjóðanna síðan árið 2001 þegar AR tímaritið hóf að kortleggja sjóðina. Þá voru heildartekjur vogunarsjóða fimm milljarðar. Sem er jafn er nærri jafn há upphæð og Paulson einn þénaði fyrir sjóð sinn á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×