Lífið

Jens Lekman í spreng

Jens Lekman ætlar að gefa út breiðskífu og EP-plötu á árinu.
Jens Lekman ætlar að gefa út breiðskífu og EP-plötu á árinu. MYND/Kristin Lidell

Sænski furðupopparinn Jens Lekman hefur haft hægt um sig síðustu misserin en ætlar nú að gera bragarbót þar á. Hann stefnir að því að gefa bæði út breiðskífu og EP-plötu á þessu ári. Lekman er mikið niðri fyrir.

Íslandsvinurinn Lekman skrifaði á vefsíðu sína í síðustu viku að aðdáendur hans ættu von á vænni sendingu.

„Nýja platan hefur verið lengi í smíðum því hún fór ekki að taka á sig mynd fyrr en fyrir nokkrum mánuðum. Fram að því var þetta bara samtíningur af öllum fjandanum. Rétt eins og þú hefðir sett höndina í vasann og hent því sem þar væri að finna á borð, svona svipað og þrjár síðustu plötur mínar og það er ekkert að þeim en þessi er Plata.“

Lekman segir að hann hafi lagt upp með að lögin fjölluðu um allt annað en hann sjálfan. Það hafi ekki gengið eftir og útkoman hafi verið lög eingöngu um hann sjálfan og kannski 3-4 aðra sem þjóni aðeins þeim tilgangi að endurspegla sjálfan hann.

Síðasta plata Lekmans, Night Falls Over Kortedala, kom út árið 2007 og sama ár kom hann fram í Norræna húsinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.