Hugurinn hvarflar alltaf til minnisstæðustu jólagjafarinnar í bernsku. Þá starfaði pabbi sem lögfræðingur hjá sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli og fékk bandarískan vin sinn til að útvega honum ekta tindátasett með kúrekum, indjánum og bjálkakofa. Ég lék mér að þeim þar til þeir voru orðnir óþekkjanlegir og þvældir, en svona átti ekkert barn á öllum Norðurlöndunum nema ég," segir Valgeir og hlær að hjartfólginni minningu.
Hann segist lítill jólaundirbúningsmaður en þeim mun meira jólabarn.
„Jólin eru ein mesta náðarstund ársins þegar maður ætlar sér ekki of mikið, það er góð bók á kantinum og leifar af jólamat innan seilingar. Þessi sjálfskipaða kvöð Íslendinga að hafa nánast allt óaðfinnanlegt klukkan sex veldur því að ég er oft staddur í sturtunni þegar klukkurnar hringja inn jólin, en það er mjög hátíðleg sturta," segir Valgeir með andakt.
Hann segist hafa sig heilmikið í frammi í jólamatseldinni, en þau hjónin fá uppkomin börn sín í hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld, sem og móður Valgeirs og seinni eiginkonu föður hans, sem Valgeir segir óaðskiljanlegan hluta fjölskyldunnar.

„Það er alþekkt að fólk hafi varla kraft til að njóta hinnar helgu nætur, en þetta smá lærist. Ég dáist mjög að öllu módelfólki sem er búið að pakka inn jólagjöfum um verslunarmannahelgi og dregur fram síld og annan tilbúinn jólamat um hátíðarnar.
Sinn er hver siður á hverjum bæ og jólahaldið einhver hefðbundnasta athöfn lífsins. Jólamatur og serimoníur þurfa að vera eins frá ári til árs, nema vitaskuld hjá því fræknu fólki sem hefur jólakengúrur og gíraffalundir á borðum."

Þar hafa þau sett upp minjasafn um fólk sem bjó í miðbæ Reykjavíkur fyrir 150 og 200 árum. Á jólavöku næra gestir andann undir jólasöngvum Valgeirs og jólastemningu þeirra hjóna, heitu súkkulaði með rjóma og jólameðlæti.
Sjá nánar á nemaforum.com. -þlg