Erlent

Mistök að hafa Grikkland með

Nicolas Sarkozy í sjónvarpsviðtali
„Nú erum við að greiða fyrir afleiðingarnar.“ nordicphotos/AFP
Nicolas Sarkozy í sjónvarpsviðtali „Nú erum við að greiða fyrir afleiðingarnar.“ nordicphotos/AFP
Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti segir það hafa verið mistök að leyfa Grikkjum að taka upp evruna strax árið 2001. Grísk stjórnvöld hafi ekki verið reiðubúin og að auki beitt blekkingum í ríkisbókhaldinu til að fegra stöðuna.

„Þetta var ákvörðun sem var tekin held ég árið 2001, og nú erum við að greiða fyrir afleiðingarnar,“ sagði Sarkozy í sjónvarpsviðtali á fimmtudagskvöld, en nóttina áður höfðu leiðtogar evrusvæðisins komið sér saman um nýjan björgunarpakka fyrir Grikkland og önnur nauðstödd evruríki.

Hann sagði þó að björgunarpakkinn muni duga Grikkjum til að komast út úr vandanum. Með þessari ákvörðun hafi evruríkin komið í veg fyrir hamfarir á evrusvæðinu.

Grísk stjórnvöld hafa mótmælt orðum Sarkozys. Þau segja ekkert hæft í því að orsaka kreppunnar sé að leita í Grikklandi.

„Grikkland er í miðjum storminum,“ sagði Stavros Lambrinidis, utanríkisráðherra Grikklands, í viðtali við breska útvarpið BBC. „Það hjálpar ekkert að gera eitt land að blóraböggli þegar tekist er á við evrópskt vandamál.“- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×