Innlent

Stjórnlagaráð samþykkti alla kafla samhljóða

Stjórnlagaráð samþykkti samhljóða alla kafla í drögum að nýrri stjórnarskrá á síðasta fundi sínum í dag eftir rúmlega þriggja mánaða vinnu. Nú fær þjóðin orðið, sögðu fultrúar stjórnlagaráðs sem tóku lagið eftir að drögin að stjórnarskránni voru samþykkt.

Í dag var síðasti formlegi fundur stjórnlagaráðs en á morgun kemur ráðið saman til að samþykkja aðfaraorð að nýju stjórnarskránni. Vinna síðustu daga hefur ekki verið átakalaus en einn fulltrúi í stjórnlagaráði sagði í lokaræðu sinni að engin sátt næðist án átaka og nú hefði náðst niðurstaða sem allir gætu unað, enda voru drögin samþykkt samhljóða.

Að atkvæðagreiðslunni lokinni tóku fulltrúar í stjórnlagaráði lagið. Löng vegferð á enda sem hófst með kröfu almennings á Austurvelli um nýja stjórnarskrá, umdeildri kosningu sem úrskurðuð var ógild og svo atkvæðagreiðslunni í dag þar sem drög að nýrri stjórnarskrá litu dagsins ljós.

Í nýjum drögum að stjórnarskránni heldur forsetinn málskotsrétti sínum eins og í núgildandi stjórnarskrá. Kaflinn um forsetann hefur verið styttur töluvert en þar er kveðið á um að hann skuli ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil.

Vegferðinni í átt að nýrri stjórnarskrá fyrir hið Íslenska lýðveldi er þó ekki á enda, nú á þjóðin eftir að segja sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×