Innlent

Yfirlýsing ungra jafnaðarmanna vegna atburðanna í Noregi

Mynd/AFP
Ungir jafnaðarmenn á Íslandi gáfu í dag út yfirlýsingu vegna atburðanna í Noregi síðastliðinn föstudag. Í yfirlýsingunni segja þau árásirnar ekki aðeins vera árás á ungliðahreyfingu Verkamannaflokksins eða stjórnvöld í Noregi, um sé að ræða árás á lýðræðið allt.

Þá segja ungir jafnaðarmenn það vera nauðsynlegt að rödd unga fólksins heyrist nú hærra en áður. „Við verðum öll, óháð flokk eða hreyfingu, að taka höndum saman í baráttunni gegn hatri og mannvonsku. Svarið við árásum á lýðræðislegt samfélag er að efla umburðarlyndi, tjáningafrelsi og lýðræði.“



Yfirlýsingin í heild sinni:

Ungir jafnaðarmenn eru slegnir yfir atburðunum í Noregi síðastliðinn föstudag þegar ráðuneyti í Ósló voru sprengd upp og skoðanasystkini okkar voru myrt tugum saman í Útey. Hið norræna samfélag hefur orðið fyrir fólskulegri árás. Vegið er að norrænum gildum.

Þessi árás var ekki einungis árás á ungliðahreyfingu Verkamannaflokksins eða stjórnvöld í Noregi heldur lýðræðið allt. Ungt fólk skiptir miklu máli í lýðræðislegri þróun og skoðanir þess eru ekki minna virði en þeirra sem eldri eru. Þess vegna þykir okkur nauðsynlegt að rödd okkar heyrist nú hærra en áður. Við megum ekki láta þessar árásir stöðva okkur í að byggja upp réttlátt og lýðræðislegt samfélag umburðarlyndis og verðum að auka styrk okkar og samstöðu. Ógn við öryggi okkar má ekki verða til þess að við fórnum réttindum okkar.

Við verðum öll, óháð flokk eða hreyfingu, að taka höndum saman í baráttunni gegn hatri og mannvonsku.

Svarið við árásum á lýðræðislegt samfélag er að efla umburðarlyndi, tjáningafrelsi og lýðræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×