Erlent

Lýsir eftir pólitísku hugrekki

Christine Lagarde, forstjóri AGS, hvetur til þess að deilur um skuldaþak Bandaríkjanna verði leystar sem allra fyrst. Fréttablaðið/AP
Christine Lagarde, forstjóri AGS, hvetur til þess að deilur um skuldaþak Bandaríkjanna verði leystar sem allra fyrst. Fréttablaðið/AP
Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), segir að stjórnmálamenn í Bandaríkjunum þurfi að ná niðurstöðu um breytingar á skuldaþaki ríkissjóðs sem allra fyrst. Náist það ekki sé hætta á að áhrifa þess muni gæta um allan heim.

Í ræðu sinni á fundi hjá hugveitunni Council on Foreign Relations kallaði Lagarde eftir því að bandarískir stjórnmálaleiðtogar sýndu viðlíka pólitískt hugrekki og evrópskir starfsbræður þeirra hafa sýnt að undanförnu.

Greiðslufall eða lækkun lánshæfismats Bandaríkjanna vofir yfir ef ekki semst um hækkun skuldaþaks ríkissjóðs fyrir 2. ágúst næstkomandi. Segir Lagarde að slíkt yrði „afar alvarlegur atburður, ekki aðeins fyrir Bandaríkin heldur allt fjármálakerfi heimsins".

Ríkisskuldabréf Bandaríkjanna eru almennt talin öruggasta fjárfesting sem völ er á, en skuldabréf að upphæð 4 þúsund milljarðar Bandaríkjadala eru í eigu erlendra ríkissjóða, eins og Kína og Japan, sem og einkaaðila.

Deilur repúblikana og demókrata snúast aðallega um hvort eigi að hækka skuldaþakið til skamms tíma eða til lengri tíma. Mikil harka er hlaupin í málið eftir að upp úr slitnaði í viðræðum flokkanna fyrir skemmstu. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×