Sport

Breyttu nafninu án samráðs við eigandann

Hans Steinar Bjarnason skrifar
Haukar hafa beðið Hafnarfjarðarbæ afsökunar á að hafa breytt nafninu á íþróttahúsinu á Ásvöllum án samráðs við bæinn sem á húsið. Haukar hafa gert 2 ára auglýsingasamning við þýska flutningafyritækið DB Schenker. Íþróttahúsið á Ávöllum ber nú nafnið Schenker höllin og fótboltavöllurinn heitir nú Schenkervöllurinn.

Íþróttahúsið er í 100 prósenta eigu Hafnarfjarðarbæjar og hafa stórar merkingar verið setttar upp án samráðs við bæinn.

Magnús Gunnarsson, framkvæmdastjóri Hauka, hefur í erindi til bæjarstjóra beðist afsökunar á hafa ekki beðið formlega um samþykki bæjaryfirvalda.

Magnús vildi ekki upplýsa Stöð 2 um hvað Haukar fá fyrir samninginn en segir hann nauðsynlegan þar sem Haukar eins og fleiri íþróttafélög rói lífróður til að halda starfsemi sinni gangandi.

Haukar eru ekki eina félagið sem hafa selt nafnið á heimavelli sínum. Handbolta- og körfuboltalið Vals leika heimaleiki sína til að mynda í Vodafone-höllinni á Hlíðarenda og KR ingar í körfuboltanum í DHL-höllinni í Frostaskjóli.

Hjá bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði fengust þær upplýsingar að sviðsstjóra umhverfis og framkvæmdaráðst hafi verið falið að ræða við forsvarsmenn Hauka um málið, eðlilegt sé að formleg beiðni berist frá Haukum svo bæjarstjórn geti tekið afstöðu til málsins.

Ekki sé þó útlit fyrir að nafnabreytingin verði gerð ógild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×