Skoðun

Samtal um trú og samfélag

Spurningin um tilvist Guðs eða tilvist hins illa er ekki knýjandi í trúmálaumræðu dagsins. Trúarspurningar samtímans snúast fremur um sýn okkar á hið góða samfélag og um hlutverk og rými hins trúarlega innan þess. Um þetta fjallar samtalið um kirkju og skóla í höfuðborginni.

Deilur um ákvörðun mannréttindaráðs Reykjavíkur endurspegla ágreining um sýnina á hið góða samfélag. Ekki er deilt um trúarbragðafræðslu. Námskrá grunnskóla er skýr og henni er fylgt eftir efnum og aðstæðum á hverjum stað. Deilurnar standa um þann félagslega umbúnað sem trú og trúariðkun nemenda er sniðið af skóla og menntayfirvöldum.

Aðgerðir borgarinnar beinast að því starfi trúfélaga með börnum og unglingum sem getur flokkast sem boðun og skarast við tíma og rými skólans. Hér má nefna fermingarstarf sem krefst sveigjanleika frá hefðbundnu skólastarfi og tilboð um kirkjustarf í skipulögðum frístundum skólabarna.

Barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar byggir á þeirri sýn að trúin sé eitt af því mikilvæga í lífi manneskjunnar og þar með í samfélaginu. Gagnrýna má borgaryfirvöld fyrir að taka trúna út fyrir rammann og setja önnur viðmið fyrir tengsl trúfélaga og skóla en íþróttahreyfinga, skáta og tónlistarskóla.

Þjóðkirkjan er stærsta trúfélagið í Reykjavík og á landinu öllu. Að mörgu leyti hefur kirkjan gengið hreint til verks. Hún hefur markað sér stefnu um aðgreiningu fræðslu sem er á ábyrgð skólans og boðunar sem kirkjan sinnir. Forsvarsmenn sókna og hverfisskóla hafa einnig nálgast málið af ábyrgð og virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og fundið leiðir til að umgangast hið trúarlega sem hluta af fjölbreytileika samfélagsins.

Samtalið um hið góða samfélag og hlutverk trúarinnar heldur áfram í kirkju, skóla og borg. Áskorunin er að draga úr tortryggni og efla traust. Aðferðin er samtal og hlustun með visku og skilningi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×