Tónlist

Flytur út tónlist

Apparat Organ Quartet gerði samning fyrir umboðsskrifstofuna
Apparat Organ Quartet gerði samning fyrir umboðsskrifstofuna Mynd: Projekta
Ný umboðsskrifstofa hefur verið sett á laggirnar sem sérhæfir sig í ráðgjöf og útflutningi tónlistar. Fyrirtækið, sem hefur hlotið nafnið PROJEKTA, er starfrækt af John Rogers, stofnanda Brainlove plötuútgáfunnar, Vasilis Panagiotopoulos, umboðsmanni og kynningarfulltrúa, og Hildi Maral Hamíðsdóttur, viðburðastjórnanda og kynningarfulltrúa, en þau hafa öll starfað lengi innan tónlistargeirans á ólíkum sviðum.

PROJEKTA gerir út frá London, Brussel og Reykjavík og fer listinn yfir hljómsveitir á mála hjá fyrirtækinu ört stækkandi, samkvæmt tilkynningu.

Nú síðast var það hin goðsagnakennda sveit Apparat Organ Quartet sem bættist við listann en hljómsveitin gerði nýlega samning við danska plötufyrirtækið Crunchy Frog um útgáfu plötunnar Pólýfóníu á erlendri grundu. Pólýfónía kom út á Íslandi á vegum 12 Tóna síðla ársins 2010 og hlaut feikigóða dóma, en hún mun prýða stræti Evrópu frá og með september þegar hún kemur út hjá Crunchy Frog. Í kjölfarið stefnir hljómsveitin á tónleikahald í Evrópu til að fylgja útgáfunni eftir.   

Aðrar hljómsveitir á mála hjá PROJEKTA eru gríska sveitin FILM, hin íslenska Rökkurró og breska sveitin Napoleon IIIrd sem er nýbúin að gefa út aðra plötu sína við góðar undirtektir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×