Viðskipti erlent

Moody´s lækkar lánshæfið hjá fimm dönskum bönkum

Matsfyrirtækið Moody´s hefur lækkað lánshæfiseinkunnir hjá fimm dönskum bönkum í framhaldi af gjaldþroti Amagerbanken. Meðal þeirra eru Danske Bank og FIH bankinn sem var áður í íslenskri eigu.

Í fréttum í dönskum fjölmiðlum í morgun segir að fyrir utan að lækka lánshæfiseinkunnir þessara banka hafi einkunnir þriggja þeirra verið settar á neikvæðar horfur þ.e. hjá Danske Bank, FIH og BankNordik.

Fyrir utan framangreinda tvo banka voru lánshæfiseinkunnir lækkaðar hjá Spar Nord Bank, Ringkjöbing Landbobank og BankNordik. BankNordik hét áður Færeyjabanki og er skráður í kauphöllina á Íslandi.

Í rökstuðningi Moody´s um lækkunina á lánshæfiseinkunnum dönsku bankanna segir m.a. að gjaldþrot Amagerbanken hafi leitt í ljós að dönsk stjórnvöld hafi vilja til og möguleika á að láta bæði innlánseigendur og kröfuhafa í dönskum bönkum bera tap þótt að viðkomandi bankastarfsemi haldi áfram. Því hafi Moody´s endurmetið þann stuðning sem danskir bankar eiga í vændum frá „kerfinu".








Fleiri fréttir

Sjá meira


×