Erlent

Sýndi fram á hið ómögulega

Ísraelskur vísindamaður hlýtur Nóbelsverðlaunin í efnafræði þetta árið.
fréttablaðið/AP
Ísraelskur vísindamaður hlýtur Nóbelsverðlaunin í efnafræði þetta árið. fréttablaðið/AP
Ísraelski vísindamaðurinn David Schechtman fær Nóbelsverðlaunin í efnafræði fyrir að hafa bylt hugmyndum efnafræðinga um föst efni.

Það var árið 1982, þegar Schechtman starfaði að rannsóknum í Bandaríkjunum, sem hann uppgötvaði nýja efnagerð, svonefnda hálfkristalla, sem vísindamenn höfðu áður talið að gætu ekki verið til.

Hann var þá að rannsaka blöndu af áli og mangani í rafeindasmásjá og tók eftir því að frumeindir röðuðust í munstur sem áttu ekki að vera möguleg samkvæmt kenningum efnavísindanna.

Kristallar eru þeirrar gerðar að þeir raðast í munstur sem endurtaka sig reglulega, en þessi munstur voru svipuð kristöllum að því undanskildu að þau endurtóku sig ekki.

Hann ályktaði sem svo að þarna hlytu vísindin að hafa rangt fyrir sér. Það tók hins vegar langan tíma fyrir hann að sannfæra aðra vísindamenn, sem svöruðu honum fyrst með háðsglósum og hættu að taka mark á honum.

Smám saman viku þó háðsglósurnar fyrir almennri viðurkenningu, sem nú hefur náð hámarki í Nóbelsverðlaununum.

„Það sem ég hef lært á þessu er að góður vísindamaður er auðmjúkur hlustandi sem aldrei er hundrað prósent viss um það sem stendur í fræðibókunum,“ sagði Schechtman, sem nú er orðinn sjötugur og býr í Ísrael.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×