Erlent

Um 150 hafa setið saklausir í Guantanamo

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hina illræmdu Guantanamo fangabúðir á Kúbu. Mynd/ afp,
Hina illræmdu Guantanamo fangabúðir á Kúbu. Mynd/ afp,
Um 150 saklausir menn hafa verið vistaðir í Guantanamo fangabúðunum á Kúbu, en tugir hryðjuverkamanna hafa jafnframt verið vistaðir þar. Þetta kemur fram í leyniskjölum sem WikiLeaks hefur lekið.

Í skjölunum, sem Daily Telegraph fjallar um á vef sínum, kemur fram að al-Qaeda hryðjuverkasamtökin hafa hótað því að láta kjarnorkusprengjum rigna á Vesturlönd ef Osama bin Laden verður handsamaður eða myrtur. Þetta kemur fram í skjölunum. Í þeim er greint frá yfirheyrslum yfir meira en 700 föngum í Guantanamo.

Í skjölunum kemur fram að fjölmargir hafi setið saklausir í fangabúðunum. Jafnframt hafi fjölmargir lágtsettir fótgönguliðar setið þar og jafnvel verið pyntaðir áður en ljóst varð að þeirra hlutverk í hryðjuverkaárásum eða áformuðum hryðjuverkaárásum hafi einungis verið lítið.

Daily Telegraph segir að í WikiLeaks skjölunum sé varpað ljósi á bakgrunn þeirra 780 manna sem hafi verið vistaðir í Guantanamo fangabúðunum í þau 10 ár sem þær hafa verið starfræktar. Einungis um 220 þeirra eru taldir vera hættulegir alþjóðlegir hryðjuverkamenn, um 380 eru álitnir vera lágt settir fótgönguliðar, annað hvort frá Afganistan, eða Pakistan. Að minnsta kosti 150 eru saklausir Afganistar og Pakistanar, þar á meðal bændur, kokkar og bílstjórar, sem bandarískar hersveitir hafa handsamað.

Daily Telegraph segir að ekki komi fram í skjölunum hvaða aðferðum hefur verið beitt til að pynta þessa menn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×