Lífið

Allir í bænum klappa manni á bakið og hrósa stráknum

Jón Ólafur Óskarsson fyrir framan treyjuna góðu sem hangir fyrir ofan sjónvarpið. Jón Ólafur er pabbi Þóris Ólafssonar, sem hefur farið á kostum með íslenska landsliðinu. Með honum er Jason Dagur, sonur Þóris. mynd/gks
Jón Ólafur Óskarsson fyrir framan treyjuna góðu sem hangir fyrir ofan sjónvarpið. Jón Ólafur er pabbi Þóris Ólafssonar, sem hefur farið á kostum með íslenska landsliðinu. Með honum er Jason Dagur, sonur Þóris. mynd/gks
„Það hafa verið mikil veisluhöld hérna, við vorum fimmtán saman í gær [í fyrradag] að horfa á leikinn gegn Austurríki. Ættingjarnir eru alveg að fara yfir um,“ segir Jón Ólafur Óskarsson, faðir hornamannsins knáa Þóris Ólafssonar.

Þórir hefur farið mikinn á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð með „strákunum okkar“, fór á kostum gegn því austurríska í seinni hálfleik og lék við hvurn sinn fingur gegn Japönum. En þrátt fyrir að hann hafi verið viðloðandi landsliðið í tíu ár er þetta einungis annað stórmótið hjá leikmanninum Og það er varla hægt að óska sér betri byrjunar, Þórir er búinn að skora átján mörk, hefur nýtt öll skot sín nema tvö og er því með 90 prósenta skotnýtingu. „Það er nánast alveg sama hvert maður fer, það er gríðarlega mikill áhugi og það skiptir engu hvort maður fer út í búð eða sund, allir klappa manni á bakið og hrósa stráknum,“ segir Jón Ólafur.

Fjölskylda Þóris lá á bæn síðustu dagana fyrir HM því meiðslasaga hans fyrir stórmót íslenska landsliðsins hefur verið með hreinum ólíkindum. Hann var nánast öruggur um sæti í ólympíu­liðinu fræga en viðbeinsbrotnaði skömmu fyrir mótið og neyddist til að draga sig út úr hópnum. Þegar kom að Evrópu­mótinu í Austurríki, þar sem Íslendingar unnu brons, var Þórir enn og aftur kallaður til starfa. En þá dundu ósköpin yfir. „Við förum alltaf saman í sund þegar hann er hérna heima og vorum eitthvað að kljást og þá rifnaði eitthvað í vöðvanum. Hann æfði reyndar eitthvað aðeins eftir það en varð að draga sig út úr liðinu,“ segir Jón Ólafur, sem var svo illa haldinn af samviskubiti að hann horfði ekki á leiki landsliðsins það skiptið, fór heldur í fjallgöngu þegar þeir voru sýndir. „Ég hafði hreinlega ekki þolinmæði fyrir því.“

En nú hangir landsliðstreyja Þóris fyrir ofan sjónvarpið á heimilinu og hinar treyjurnar eru einnig til sýnis uppi á vegg. Og Jón Ólafur er farinn að gæla við ferð til Svíþjóðar. Hann ætlar að láta það ráðast af úrslitum leiksins við Norðmenn. „Ég er sko búinn að vera að skoða miða og þegar ég sé að þeir eru að fara eitthvað langt þá skelli ég mér, tek eitthvað af börnunum og kannski tengda­soninn með.“

freyrgigja@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.