Innlent

Barirnir komu Íslendingnum á Svalbarða á óvart

Miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu á Svalbarða á undanförnum árum. Þar sem áður voru einkum kolanámuverkamenn er nú vísindasamfélag og vaxandi ferðaþjónusta, - og þar býr auðvitað Íslendingur.

Það tæki um þrjá tíma að fljúga með þotu frá Reykjavík til Svalbarða en daglegt áætlunarflug til höfuðstaðarins Longyearbyen er frá Norður-Noregi. Um þrjúþúsund manns búa á eyjunum, langflestir eru þó aðeins tímabundið við störf. Kolanám er fjölmennasta atvinnugreinin en háskóli er orðinn næststærsti vinnustaðurinn. Þarna segja menn að það sé bæði bannað að fæðast og eldast, því hvorki er rekin ungbarnaþjónusta né öldrunarþjónusta á Svalbarða. Þó eru þarna skólar fyrir börn starfsmanna.

Það liggur beinast við að telja að nafnið Longyearbyen sé komið af því að þar hafi mönnum þótt tíminn lengi að líða. En svo er ekki heldur er bærinn kenndur við Bandaríkjamann sem hét Longyear. Hann hóf þarna rekstur kolanámu árið 1906 og þar til fyrir um tuttugu árum var þetta fyrst og fremst samfélag námuverkamanna og enn eru þrjár námur í rekstri.

En þá var eins og allir fengju áhuga á Svalbarða og Norðurslóðum. Tíu þjóðir hafa komið á fót rannsóknarstöðvum. Norðmenn hafa byggt upp rannsóknarháskóla og eflt aðra starfsemi. Þótt Svalbarði tilheyri Noregi, og sé í umsjá Norðmanna, hafa þeir að formi til ekki meiri rétt þarna en Íslendingar og aðrir þegnar þeirra fjörutíu ríkja sem aðild eiga að Svalbarðasáttmálanum.

Og kannski má túlka rekstur fræbanka, í hvelfingu inni í fjalli, þar sem þjóðum heims býðst að geyma grundvöll matvælaframleiðslu sinnar, sem skilaboð um að allir jarðarbúar eigi tilkall til Svalbarða.

En það var hin öfluga ferðaþjónusta sem kom eina Íslendingnum þarna, Sigfúsi Konráðssyni, á óvart þegar hann réð sig til starfa sem yfirþjónn á hóteli í Longyearbyen fyrir rúmu ári. Hann segist ekki hafa búist við að í þessum tvöþúsund manna bæ væru níu barir og þrír virkilega flottir veitingastaðir.

Sigfús nýtur þess að þetta er skattaparadís. Þetta er nefnilega ekki norskt skattland og sautján prósenta flatur skattur rennur í Svalbarðasjóð. Það veldur því að til dæmis skattar á áfengi og eldsneyti eru mun lægri en víðast hvar.

Þegar við spyrjum hvort hann sé þarna peninganna vegna svarar Sigfús að það komi allir peninganna vegna en þeir dvelji áfram Svalbarða vegna. Hann sé þarna til að sjá sem mest og upplifa sem flest. Það spilli þó ekki fyrir að þarna séu bæði launin hærri og skattarnir lægri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×