Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, var sár og svekktur þegar Vísir heyrði í honum í kvöld. ÍBV tapaði gegn írska liðinu Saint Patrick´s, 2-0, og er úr leik í Evrópudeild UEFA.
"Þetta er mjög svekkjandi. Við fengum fjölmörg góð færi til þess að skora í báðum hálfleikjum. Boltinn vildi bara ekki inn," sagði Heimir svekktur.
"Tryggvi fær mjög fín færi í fyrri hálfleik en hafði ekki heppnina með sér. Við fáum svo tvö algjör dauðafæri undir lok leiksins. Frían skalla á markteig og skot. Það munaði mjög litlu að við hefðum náð markinu sem okkur vantaði."
Saint Patrick´s vann rimmu liðanna 2-1 samanlagt en útivallarmark í kvöld hefði komið ÍBV áfram og alla leið til Kasakstan en Saint Patrick´s fær að fara þangað.
