Lífið

Þrjú tonn af lóðum til landsins

Andrés Ramon stendur fyrir tækjasýningunni sem verður haldin vegna myndarinnar Challenging Impossibility. fréttablaðið/hag
Andrés Ramon stendur fyrir tækjasýningunni sem verður haldin vegna myndarinnar Challenging Impossibility. fréttablaðið/hag
Skip lagði í gær af stað frá Bandaríkjunum til Íslands með þrjú tonn af lyftingalóðum.

Lóðin, ásamt lyftingatækjum sem koma með flugi, verða til sýnis í Bíó Paradís í tengslum við sýningu heimildarmyndarinnar ChallengingImpossibility á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF.

Andrés Ramon, sem stendur fyrir flutningi tækjanna, sá heimildarmyndina á Tribeca-hátíðinni í New York í vor og lét forsvarsmenn RIFF vita af myndinni. „Í framhaldinu kom þessi hugmynd að vera með þessa tækjasýningu. Þau á hátíðinni voru rosalega jákvæð og opin fyrir þessu og þetta verður bara mjög spennandi,“ segir Andrés en tveir náungar sem sáu um sams konar tækjasýningu á Tribeca koma einnig til landsins.

Challenging Impossibility fjallar um andlega leiðtogann Sri Chinmoy frá Indlandi sem árið 2004, 76 ára gamall, lyfti rúmum nítíu þúsund kílóum á fjórum klukkustundum til að sýna styrk sinn. Með þessu vildi hann sýna fram á að aldur fólks væri í huga þess en ekki í hjartanu.

Um eina og hálfa milljón kostar að flytja lóðin og lyftingatækin til landsins og það er Sri Chinmoy-setrið á Íslandi sem borgar. Það hefur verið starfrækt í um þrjátíu ár.

Andrés þekkti Chinmoy og stundaði hugleiðslu hjá honum í tíu ár, eða þangað til hann dó 2007. „Ég fór nokkrum sinnum til New York að hitta hann og var viðstaddur þessa sýningu sem myndin fjallar um,“ segir hann. „Hann var mjög merkileg manneskja og það var mjög áhrifamikið að hafa kynnst honum og verið hjá honum á meðan hann var á lífi.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.