Lífið

Heimsmeistari og leikari í dómarasætinu

Frumraun í sjónvarpi Karen Björk Björgvinsdóttir er ein af dómaratríóinu í nýjum dansþætti á RÚV. Hún er fyrrverandi heimsmeistari í samkvæmisdönsum. 
Fréttablaðið/valli
Frumraun í sjónvarpi Karen Björk Björgvinsdóttir er ein af dómaratríóinu í nýjum dansþætti á RÚV. Hún er fyrrverandi heimsmeistari í samkvæmisdönsum. Fréttablaðið/valli
„Ég var strax mjög spennt fyrir þessu og það er gaman að vera með," segir Karen Björk Björgvinsdóttir dansþjálfari, en hún þreytir frumraun sína í sjónvarpi þegar hún sest í dómarasætið í nýjum dansþætti á RÚV.

Karen Björk verður hluti af dómaratríói sem einnig er skipað Katrínu Hall og Gunnari Helgasyni leikara. Auk þeirra þriggja verður fenginn einn gestadómari til liðs við þau í hverjum þætti, en þættirnir fara í loftið í október.

„Við erum mjög ánægð með þetta dómaratríó, tvær fagmanneskjur og svo er Gunnar fenginn inn sem rödd áhorfandans. Mér skilst reyndar að hann sé lunkinn dansari en hann er líka vanur því að halda áheyrnarprufur," segir Þór Freysson hjá Saga Film, sem sér um að framleiða þættina fyrir RÚV.

Karen var heimsmeistari í samkvæmisdönsum árið 2003 en hún hefur nú lagt keppnisskóna á hilluna og snúið sér alfarið að þjálfun. „Það er auðvitað smá fiðringur í manni fyrir fyrsta þáttinn en annars er ég öllu vön. Þegar við vorum að keppa fylgdi því að vera í fjölmiðlum. Nú verður þetta bara gaman og ég ætla að vera hreinskilinn dómari."

Karen er handviss um að þátturinn eigi eftir að hafa góð áhrif á dansmenninguna enda aragrúi af efnilegu dansfólki á landinu. „Ég ætla að mæla eindregið með þátttöku við alla mína nemendur enda tilvalið til að koma sér og listinni á framfæri."

Skráning í prufurnar, sem fara fram 1. og 2. október, hófst í dag en hún fer fram á vefsíðu Ríkissjónvarpsins, ruv.is. Sigurvegari þáttanna fær eina milljón króna í verðlaun. - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.