Innlent

Fundað í dag um tillögur ríkisstjórnarinnar

Karen Kjartansdóttir skrifar
Vilhjálmur Egilsson.
Vilhjálmur Egilsson.
Aðilar vinnumarkaðsins funda í dag um tillögur ríkisstjórnarinnar sem ætlað er höggva á hnút kjaraviðræðna. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að viðræðunar snúist meðal annars um að reyna ná meiri festu í atvinnulífið til dæmis með því að koma í veg fyrir kennitöluflakk fyrirtækja.

Mikil hreyfing er komin á kjaraviðræðurnar og sagði forseti Alþýðusambandsins í gær að vonast væri til að hægt yrði að semja í næstu viku.

Fundarhöld munu hefjast um klukkan tvö í dag í Karphúsinu en á honum á að leggja drög að vinnu í næstu viku fyrir lokaáfanga kjarasamninganna. Reyna á að samræma afstöðu aðila vinnumarkaðsins til tillagna ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru fyrir forystumönnum aðila vinnumarkaðarins í fyrradag.

Segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins að meðal þeirra verkefna sem unnið sé að sé að reyna koma meiri festu í atvinnulífið. Það eigi til að mynda að gera með því að reyna koma í veg fyrir að fyrirtæki geti stundað, það sem hann kallar raðkennitöluflakk, það er að segja þegar menn láti hvert fyrirtækið fara á hausinn á eftir öðru en láti skaðann lenda á ábyrgðarsjóði launa.

Þá er einnig verið að reyna finna leiðir til að ná sátt um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna.

Þá er reynt að ná sátt í sjávarútvegsmálum en útvegsmenn og forystumenn Samtaka atvinnulífsins fóru á neyðarfund með sjávarútvegsráðherra síðdegis í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×