Innlent

Gengislán íbúða enn í óvissu

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Þrátt fyrir nýsett gengislög viðskiptaráðherra virðist alger óvissa enn ríkja um hvað þúsundir heimila skulda í gengistryggð húsnæðislán. Fordæmisgefandi mál gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum fer fyrir Hæstarétt eftir 2 vikur, niðurstaðan gæti breytt endurútreikningi á gengistryggðum húsnæðislánum.

Kona sem beðið hefur í óvissu með útbólgið gengislán frá Frjálsa fjárfestingarbankanum í nærri tvö ár hafði samband við fréttastofu. Þegar gengislánafrumvarp viðskiptaráðherra var loks samþykkt rétt fyrir jól, kveðst konan hafa hringt í bankann til að spyrja hvenær þau fengju endurútreikning á láninu og fengið þau svör að þessi lán færu fyrir dóm 19. janúar. Konan varð hvumsa og spyr hvort Frjálsi ætli þá að hunsa gengislánalög viðskiptaráðherra. Lög sem áttu að tryggja að allir með ólögleg gengislán sætu við sama borð.

Upplýsingafulltrúi Frjálsa fjárfestingarbankans hafnaði boði um sjónvarpsviðtal en sendi yfirlýsingu þar sem meðal annars kemur fram að:

„Þann 19. janúar nk. verða tekin fyrir í hæstarétti tvö mál þar sem Frjálsi fjárfestingarbankinn er málsaðili að. Annar vegar er um að ræða mál einstaklings og hins vegar lögaðila sem tóku erlend lán hjá bankanum... Niðurstöðu hæstaréttar í þessum málum er að vænta seinnipart febrúar mánaðar nk. eða um sama leyti og endurútreikningur erlendra lána einstaklinga mun liggja fyrir."

Vart er hægt að skilja yfirlýsingu bankans öðruvísi en svo að niðurstaða Hæstaréttar geti haft áhrif á uppgjör gengistryggðra húsnæðislána.

Arnar Þór Jónsson, lögmaður fólksins sem skuldar Frjálsa fjárfestingarbankanum gengistryggða húsnæðislánið - sem er á leið til Hæstaréttar, telur nýju gengislögin séu sniðin fyrir fólk sem skuldar bílalán. Þeir sem skuldi gengistryggð húsnæðislán telji að annað gildi um þau en bílalánin, enda séu húsnæðislánin til lengri tíma og með tryggari veðum. Og hann telur gengislögin nýju ekki taka skýrt á því hvernig eigi að reikna vaxtakjör á þeim lánum frá því lánið var tekið.

Samkvæmt Seðlabankanum voru um 8900 heimili með gengistryggð húsnæðislán í árslok 2008 - nýrri tölur liggja ekki á lausu. Dómur Hæstaréttar yrði að líkindum fordæmisgefandi, að mati Arnars, og hann játar því að staða mála sé því þannig að þessar þúsundir heimila séu því - nú þremur árum eftir að krónan tók að hrynja - enn í algerri óvissu um uppgjör lána sinna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×