Innlent

Innleiðing ESB-reglugerða er skilvirkari

Eftirlitsstofnun EFTA gefur á tveggja ára fresti út skýrslu um innleiðingu ESB-reglugerða í EES-ríkjunum.
Eftirlitsstofnun EFTA gefur á tveggja ára fresti út skýrslu um innleiðingu ESB-reglugerða í EES-ríkjunum.
Íslenskum stjórnvöldum hefur gengið betur að innleiða lög um innri markað Evrópu eftir að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu eftirlitsstofnunar EFTA um EES-ríkin. Innleiðing reglna í samræmi við EES-samninginn er meðal þess sem litið er til í aðildarviðræðunum við ESB.

Hlutfall þeirra laga sem Ísland á eftir að innleiða lækkaði úr 1,3 prósenti í 1 prósent á milli ára en 1 prósent er viðmiðunarmark eftirlitsstofnunar EFTA. Þetta er í fyrsta skipti síðan árið 2003 sem Ísland stenst viðmiðunarmarkið.

Ísland er þó áfram eftirbátur Noregs og Liechtenstein en þar er sama hlutfall annars vegar 0,2 prósent og hins vegar 0,5 prósent. Meðaltal EES-rikjanna er lægra en meðaltalið í aðildarríkjum ESB. Fjöldi þeirra reglugerða sem Ísland á eftir að innleiða vegna þátttökunnar í EES er nú 33 en var 50. Ein reglugerð hefur verið óinnleidd í meira en tvö ár sem þykir ámælisvert.

Ísland þarf samkvæmt EES-samningum að innleiða allar reglugerðir um innri markað Evrópu. Ríkjum er hins vegar í sjálfvald sett hvernig innlend löggjöf er aðlöguð að ESB-reglugerðum. Ísland innleiðir reglugerðir um innri markaðinn með 10,7 mánaða töf að meðaltali, sem er aukning um 0,2 mánuði á milli ára.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×