Lífið

Borgaraleg ferming vinsæll valkostur

Börn sem hljóta borgaralega fermingu fá kennslu í siðfræði, gagnrýnni hugsun og lífsleikni. Nordicphotos/Getty
Börn sem hljóta borgaralega fermingu fá kennslu í siðfræði, gagnrýnni hugsun og lífsleikni. Nordicphotos/Getty
Borgaraleg ferming nýtur vaxandi hylli hérlendis. Þannig ætla 195 börn að fermast borgaralega í ár en þau voru 166 á síðasta ári. Hope Knútsson, formaður Siðmenntar, telur gott orðspor ráða því að sífellt fleiri velja þennan kost.

„Það er helsta ástæðan sem mér dettur í hug. Þegar börnin fermast borgaralega eru vinir þeirra og vandamenn viðstaddir, upplifa athöfnina með eigin augum og þannig fjölgar þeim statt og stöðugt sem fara að velta þessum möguleika fyrir sér."

Margir tengja ferminguna fyrst og fremst við kirkjulega athöfn þar sem einstaklingurinn staðfestir skírnarheit og játast kristni. Hver er þá tilgangurinn með borgaralegri fermingu ef slíkt stendur ekki til?

„Þetta er valkostur fyrir þá sem vilja fagna tímamótum, góð viðbót í flóruna," svarar Hope og bætir við að fermingarbörnin læri að auki margt gagnlegt.

Hope Knútsson, formaður Siðmenntar.
„Þau fá sína fermingarfræðslu eins og önnur fermingarbörn en áherslurnar eru aðrar. Þannig einblínum við á siðfræði, gagnrýna hugsun og lífsleikni; jafnrétti, almenn mannréttindi, virðingu fyrir trúarbrögðum og ólíkum skoðunum og mannleg samskipti eru hluti af því sem við tökum fyrir."

Hún getur þess að hvorki barnið né foreldrar eða aðstandendur þess þurfi að vera skráðir í Siðmennt til að geta fermst borgaralega.

„Skráning í trúfélög er heldur engin fyrirstaða fyrir því," tekur hún fram og vísar á heimasíðu félagsins, sidmennt.is, þar sem nálgast megi allar nánari upplýsingar.- rve






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.