Erlent

Útópískt alræðisríki strumpanna

Jósef Stalín og Æðsti strumpur
Jósef Stalín og Æðsti strumpur
Aðdáendur strumpanna reyna þessa dagana að verja litlu bláu vini sína gegn ásökunum um gyðingahatur, kynþáttahatur og kommúnisma í kjölfar útgáfu nýrrar bókar fyrirlesarans og rithöfundarins Antoine Buéno, þar sem hann leggst í greiningu á samfélagi strumpanna.

Í bókinni, sem ber nafnið "Le Petit Livre Bleu: Analyse critique et politique de la société des Schtroumpfs" (Litla bláa bókin: Gagnrýnin greining og pólitíkin í samfélagi strumpanna), bendir Buéno á að strumparnir lúti allir stjórn eins leiðtoga og lifi í heimi þar sem sjálfstætt frumkvæði sé sjaldnast verðlaunað, allar máltíðir séu sameiginlegar og sjaldnast stígi nokkur strumpur fæti út fyrir landsteinana.

Leon Trotsky og Gáfnastrumpur. Dæmi nú hver fyrir sig.
Fyrirlesarinn líkir síðan samfélagi strumpanna við útópískt alræðisríki sem minni á kommúnisma Jósefs Stalíns. Hann bendir á að Æðsti strumpur klæðist rauðu og líkist Stalín sjálfum en Gáfnastrumpi svipi hins vegar til Leon Trotsky, leiðtoga Rauða hersins í Rússlandi. Einnig bendir hann á að gyðingahatur leynist í karaktersköpuninni á bak við óvin strumpanna, galdrakarlsins Kjartans, auk þess sem hann tengir söguna um svörtu strumpana við nýlendustefnuna.

Viðbrögð við bókinni voru snögg og full af reiði en aðdáendur strumpanna hafa hellt sér yfir Buéno, kallað hann öllum illum nöfnum og sakað hann um að eyðileggja minningar barnæskunnar. Viðbrögðin komu flatt upp á rithöfundinn en hann segir ætlun sína aldrei hafa verið að svipta sögurnar ljóma sínum. Hann hafi einungis lagt fram sanngjarna rýni og haft gaman af því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×