Innlent

Sérfræðiaðstoð fyrir 555 milljónir

Mynd/Pjetur
Íbúðalánasjóður keypti sérfræðiaðstoð af einstaklingum og lögaðilum fyrir um 555 milljónir á tímabilinu 2001-2008. Árið 2008 var kostnaðurinn rúmar 100 milljónir. Þetta er meðal þess fram kemur í svari Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra, við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur vildi fá að vita hvað fælist í þeirri sérfræðiaðstoð sem Íbúðalánasjóður keypti á árunum 2000–2008, hverjum sjóðurinn greiddi fyrir sérfræðiaðstoðina og hve mikið. Guðlaugur lagði fyrirspurnina fram í byrjun september á síðasta ári. í samtali við fréttastofu gagnrýnir hann hversu langan tíma hefur tekið fyrir ráðherra að svara fyrirspurninni. Hann hafi þurft að fá lögfræðiálit til að fá svarið. Fyrirspurn hans væri auk þess ekki svarað að fullu þar sem árið 2000 vanti í svarið sem og upphæðir undir 250 þúsund krónum.

Fram kemur í svari Guðbjarts að afar tímafrekt sé að finna öll bakskjöl og því hafi verið ákveðið að miða við greiðslur sem voru 250 þúsund krónur eða hærri. Jafnframt krefst það enn meiri vinnu að fara í gögn frá árinu 2000 þar sem árið 2001 hafi verið tekið upp nýtt bókhaldskerfi hjá Íbúðalánasjóði.

Á árunum 2001-2003 keypti Íbúðalánasjóður sérfræðiaðstoð fyrir um 30 milljónir á ári, en kostnaðurinn var yfir 100 milljónir 2004. Næstu tvö ár var kostnaður sjóðsins vegna sérfræðiaðstoðar um 80 milljónir. Þá varði Íbúðalánasjóður um 100 milljónum í aðkeypta sérfræðiaðstoð á ári 2007 og 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×