Innlent

Áralangri baráttu fyrir austurrísku leiðinni að ljúka

Kolbrún leggur áherslu á nauðsyn þess að löggjafinn vinni málið þannig að aðgengilegt verði fyrir löggæsluyfirvöld að koma þessu ákvæði í framkvæmd.
Kolbrún leggur áherslu á nauðsyn þess að löggjafinn vinni málið þannig að aðgengilegt verði fyrir löggæsluyfirvöld að koma þessu ákvæði í framkvæmd.
„Auðvitað fagna ég því að þetta sé vonandi að komast á endapunkt," segir Kolbrún Halldórsdóttir um afgreiðslu allsherjarnefndar á frumvarpi um hina svonefndu austurrísku leið. Þegar Kolbrún sat á Alþingi lagði hún ítrekað fram frumvarp þess efnis en aldrei komst það í gegn. Hún sér því nú fyrir lok áralangrar baráttu fyrir því að lögregla fái heimild til að fjarlægja ofbeldismenn af heimili sínu, í stað þess að brotaþoli þurfi að flýja.

Stór hluti þeirra kvenna sem dvelst í Kvennaathvarfinu er þar eftir að hafa flúið ofbeldismanninn og þar með heimili sitt.  Eftir mikla fjölgun kvennaathvarfa var farin sú leið að fjarlægja ofbeldismanninn af heimilinu í stað þess að brotaþoli þurfi að flýja, og hefur þessi leið því verið kölluð austurríska leiðin í þeim löndum sem síðar tóku hana upp.

Kolbrún leggur áherslu á nauðsyn þess að löggjafinn vinni málið þannig að aðgengilegt verði fyrir löggæsluyfirvöld að koma þessu ákvæði í framkvæmd. „Ákvæði um refsingar við klámi og nauðgunum sem eiga að vernda fólk gegn  kynferðisofbeldi hafa ekki virkað, og hefur löggæslan borið því við að löggjafinn hafi útfært reglurnar svo illa að erfitt sé að fara eftir þeim. Ég vona að þetta verði ekki eitt af þeim dæmum. Markmiðið er jú að koma í veg fyrir ofbeldið," segir Kolbrún.

Hún viðurkennir að það sé mikið inngrip í líf gerandans að fjarlægja hann af eigin heimili. „Austurríska leiðin er skref í rétta átt. Þetta er alvarlegt inngrip í líf gerandans, í líf ofbeldismannsins, en svo virðist sem lög og reglur þurfi að taka á gerandanum til að þau hafi áhrif. Aðgerðirnar þurfa að brenna á hans skinni," segir Kolbrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×