Innlent

Stefnir í mesta samdrátt í áratugi

Umferðin um hringveginn hefur dregist saman um tæplega níu prósent það sem af er ári, og stefnir í mesta samdrátt í akstri landsmanna í áratugi. Ástæðan er einkum talin vera gríðarlegar hækkanir á bensínverði, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Vegagerðin mælir umferð um þjóðveg 1 á sextán stöðum víðs vegar um landið. Umferð hefur minnkað mest á Suðurlandi, um tæp átján prósent, en minnst nærri höfuðborgarsvæðinu, um ríflega sex prósent. Byggt er á bráðabirgðatölum Vegagerðarinnar.

Samdrátturinn er jafnvel meiri þegar nýliðinn maímánuður er borinn saman við sama mánuð í fyrra.

Umferðin nú var 10 prósentum minni á landsvísu. Mest dróst umferðarþunginn saman á Suðurlandi, um 19,9 prósent, en aðeins um 4,5 prósent á höfuðborgarsvæðinu.

Í spá Vegagerðarinnar er reiknað með að samdrátturinn á árinu verði 7,7 prósent á landinu öllu. Gangi sú spá eftir verður um mesta samdrátt að ræða frá árinu 1975, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Umferðin dróst saman um tæplega tvö prósent í fyrra samkvæmt bráðabirgðatölum Vegagerðarinnar. Fram til ársins 2008 heyrði það til algerra undantekninga ef umferð dróst saman milli ára.

- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×