Innlent

Á annan veg sigraði í Tórínó

Kvikmyndin Á annan veg eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson vann til fyrstu verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Tórínó í dag. Þetta var í 29. sinn sem hátíðin er haldin en hún er á meðal virtari hátíða í kvikmyndageiranum. Sérstök verðlaun dómnefndar hlutu franska myndin Filles '17 og mynd frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Líbanon, Tayeb, Khalas, Yalla.

Á annan veg er meinfyndin og mannleg kómedía sem segir gerist upp úr 1980. Tveir ungir menn starfa við vegavinnu á afskekktum fjallvegum, handmála merkingar á malbik og reka niður tréstikur í vegkanta. Þeir hafa ekkert nema hvorn annan og tilbreytingalausa vinnuna - sem væri kannski allt í lagi ef þeim líkaði betur hvor við annan. Á annan veg er fyrsta mynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar en með aðalhlutverk fara þeir Sveinn Ólafur Gunnarsson, Hilmar Guðjónsson og Þorsteinn Bachman.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×