Lífið

Samningur í jólagjöf

Rokksveitin We Made God gefur út sína aðra plötu, It’s Getting Colder, á föstudaginn, 7. janúar, og sama dag heldur sveitin útgáfutónleika á Faktorý. Platan kemur út á vegum ítalska plötufyrirtækisins Avantgarde Music á heimsvísu 21. janúar.

„Við vorum svo heppnir að þetta útgáfufyrirtæki hafði samband við okkur. Þeir hafa verið að gefa út harðasta svartmetal á svæðinu en urðu svo heillaðir af okkur að þeir ákváðu að fara út í hinar stefnurnar á jaðrinum,“ segir söngvarinn Magnús Bjarni Gröndal. „Það er æðislegt fyrir okkur að fá svona góðan dreifingarsamning. Þetta er í raun draumur að verða að veruleika.“ Samningurinn gekk í gegn rétt fyrir jólin og fengu þeir félagar því skemmtilega jólagjöf í ár.

We Made God er upphaflega úr Hafnarfirði og Kópavogi og var stofnuð fyrir sex árum. Hljómsveitin spilar hægfljótandi rokk sem stigmagnast með hverri mínútunni. Fyrsta plata hennar, As We Sleep, kom út fyrir 2008 og fékk hún frábæra dóma í breska tímaritinu Q, fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Þar var sveitinni lýst sem blöndu af Sigur Rós og Def­tones.

Að sögn Magnúsar er stefnt að því að fylgja plötunni eftir erlendis á árinu. „En við erum að vinna mest í því að koma henni út hérna heima. Svo fer maður að hugsa um hitt. Við ætlum að taka þetta í hægum skrefum.“ - fb

Hér fyrir ofan má sjá myndband við lag af nýju plötunni, Oh Dae-su.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.