Körfubolti

Falur þjálfar kvennalið Keflavíkur - Pálína áfram í Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Falur með Íslandsbikarinn.
Falur með Íslandsbikarinn. Mynd/Daníel
Falur Harðarson hefur skrifað undir tveggja ára samning um að þjálfa kvennalið Keflavíkur en hann var aðstoðarmaður Jóns Halldórs Eðvaldssonar í vetur og hjálpaði liðinu að vinna þrefalt. Þetta kemur fram á heimasíðu Keflavíkur en þar kemur einnig fram að Pálína Gunnlaugsdóttir hafi skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið.

Auk þess að vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna í vetur þá gerði Falur bæði unglingaflokk kvenna og stúlknaflokk að Íslandsmeisturum á þessu tímabili..

Þetta er í annað skiptið sem Falur tekur við meistaraflokki kvenna hjá Keflavík en hann þjálfaði einnig liðið frá 1989 til 1991 þegar liðið vann 25 af 31 leik undir hans stjórn og varð bæði Íslands- og bikarmeistari árið 1990.

Pálína Gunnlaugsdóttir átti flott tímabil með Keflavík í vetur en hún hefur spilað með liðinu frá 2007. Pálína var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar og var auk þess valin í úrvalslið ársins.

Keflavík missir því aðeins einn leikmann úr Íslandsmeistaraliði sínu því Bryndís Guðmundsdóttir ákvað að fara í KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×