Handbolti

Óskar Bjarni: Framarar eru líklegastir

Elvar Geir Magnússon á Hlíðarenda skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson.
Framarar eru með fullt hús stiga í N1-deildinni en þeir unnu fjórða leik sinn í kvöld þegar þeir lögðu Val með einu marki. Lengi stefndi í nokkuð öruggan sigur þeirra en Valsmenn hleyptu spennu í leikinn í lokin.

"Þeir voru bara mun líklegri og voru skrefinu á undan," segir Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals. "Þeir voru fljótari að keyra á okkur svo ég var ánægður með karakterinn í mínum mönnum að fara með þetta í leik. Við þjöppuðum okkur saman en hann (Magnús Erlendsson, markvörður Fram) varði eins og vitleysingur og náði eiginlega að verja okkur út úr leiknum á fyrstu 15 mínútunum."

"Ég var ánægður með að við höfum náð þessu upp og miðað við lélega skotnýtingu er í raun ótrúlegt að við höfum bara tapað þessu með einu marki."

"Við eigum inni í sóknarleiknum að mörgu leyti, það skiptast á skin og skúrir. Það voru bara of margir sem skutu illa í seinni hálfleiknum sérstaklega. Við eigum að gera betur. Við þurfum að fá örlítið fleiri mörk úr hraðaupphlaupum," segir Óskar sem finnur þó jákvæða punkta.

"Við höldum Fram í 21 marki og ef allt hefði verið eðlilegt hefðum við átt að ná stigi. Fram er að gera frábæra hluti hjá Einari (Jónssyni), hann er góður þjálfari. Þeir hafa mestu breiddina í deildinni og eru líklegastir eins og staðan er núna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×