Handbolti

Aron: Erum að reyna að minnka sveiflurnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka.
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka. Mynd/Valli
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, var ánægður með sigur sinna manna á Akureyringum í kvöld. Sigurinn var naumur en lokatölur voru 23-22, heimamönnum í vil.

Haukar höfðu forystu í hálfleik, 14-13, en mikið gekk á í seinni hálfleik og lokamínúturnar æsispennandi.

„Það var margt sem var skrýtið í seinni hálfleik sem varð til þess að við vorum með nokkuð háan púls á bekknum,“ sagði Aron og átti þar væntanlega við dómgæsluna sem hallaði nokkuð á heimamenn að þeirra mati. „Við vissum stundum ekki í hvaða átt við áttum að hlaupa.“

„Mér fannst við koma sterkir inn í þennan leik og spila góða vörn auk þess sem að sóknin var góð í fyrri hálfleik. Birkir Ívar varði vel allan leikinn en þegar að Sveinbjörn fór að verja meira í marki Akureyrar í seinni hálfleik þá kom upp smá óöryggi í okkar sóknarleik.“

„Við erum enn að glíma við það að menn taki ekki mistökin með sér í næstu sókn og nái að hreinsa hugann inn á milli. Svo fannst mér við ekki ná að láta boltann ganga nógu vel í hraðaupphlaupunum, sérstaklega þar sem við vorum með oft í yfirtölu þá.“

Haukarnir náðu þó nokkrum sinnum 3-4 marka forystu í leiknum en alltaf náðu Akureyringar að minnka aftur muninn. „Það má skrifa það á einbeitingarleysi, bæði í vörn og sókn. Við vorum að láta reka okkur út af og það vantaði smá drápseðli í sóknina. Við vorum til dæmis þremur færri á einum tímapunkti í seinni hálfleik en náðum að svara því frábærlega. Þá sýndi liðið karakter.“

„En svona er þetta. Við erum með leikmenn sem eru enn að spila okkur saman. Okkur var spáð 4-5 sæti og það er stanslaus fram undan hjá okkur í vetur. Við erum með óreynda leikmenn, bæði inn á línu og fyrir utan og ekkert óeðlilegt að það séu sveiflur í okkar leik. Við erum að vinna í því að minnka þær og efla sjálfstraust manna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×