Viðskipti erlent

Framtíð Bella Center í töluverðri óvissu

Framtíð Bella Center hinnar þekktu hótel- og ráðstefnuhallar í Kaupmannahöfn er nú í töluverðri óvissu. Ástæðan er sú að stór hluti eigenda hennar er orðinn gjaldþrota.

Þetta gerðist í framhaldi af því að Fjordbank Mors bankinn varð gjaldþrota sem og fjárfestingarfélagið Fagbyg auk fleiri aðila sem áttu hlut í höllinni.

Við þessi gjaldþrot er helmingurinn af öllu hlutafé í Bella Center kominn í umsjón þrotabúa. Fjallað er um málið á vefsíðu börsen en þar segir að verið sé að leita að öðrum fjárfestum til að kaupa þau hlutabréf sem eru í þrotabúunum. Vonast er til að fjárfestingarsjóður komi að eignarhaldinu og kaupi þá hluti sem nú eru í þrotabúunum.

Fram kemur að Fagbyg átti 21% hlut í Bella Center og Fjordbank Mors átti rúm 14% en sá hlut er raunar kominn í hendur danska ríkisins eftir gjaldþrot bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×