Viðskipti innlent

Glitnir ábyrgðist sölu nýrra stofnfjárbréfa

Helga Arnardóttir skrifar
Glitnir samdi við BYR 2007 um að bankinn ábyrgðist sölu á nýjum stofnfjábréfum í sparisjóðnum fyrir allt að 30 milljarða króna. Ef Byr hefði ekki tekist að selja almenningi bréfin hefði Glitnir sjálfur þurft að greiða milljarðana þrjátíu, með tilheyrandi lækkun á eiginfjárhlutfalli sínu.

Glitnir lánaði nokkur hundruð stofnfjáreigendum Byrs og Sparisjóðs Norðurlands í stofnfjárútboðum sjóðanna í lok árs 2007 fyrir rúmlega tíu milljarða króna. Þrír stofnfjáreigendur voru fyrir helgi sýknaðir af greiðslukröfum Íslandsbanka í Héraðsdómi og bera því ekki persónulega ábyrgð á þeim lánum sem þeir fengu.

Í dómunum kemur fram að Glitnir virðist hafa lánað til fólks án nokkurrar skoðunar í þessum útboðum. Skipti þar engu hvort um var að ræða börn eða háaldraða, nýstofnuð eignalaus einkahlutafélög með takmarkaða ábyrgð, eða jafnvel fólk á vanskilaskrá. En af hverju var bankanum svona mikið í mun að veita lánin með þessum hætti?

„Það kom í ljós að Glitnir var með sölutryggingu og hafði skuldbundið sig til að sölutryggja útboðið hjá Byr fyrir allt að 30 milljarða króna og það skipti auðvitað miklu máli hvort hann þyrfti að efna þá skyldu eða ekki. Ef hann hefði staðið frammi fyrir því að kaupa allt stofnféð þá hefði hann hugsanlega verið að fara gegn ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki og hefði þurft að afla samþykkis Fjármálaeftirlitsins. Auk þess hefðu stórfelld kaup hans á stofnfé haft áhrif á eiginfjárhlutfall bankans. Við það hefði staða bankans breysta á almennum lánamarkaði," segir Hróbjartur Jónatansson lögmaður hóps stofnfjáreigenda í Byr.

Áður en til málaferlanna kom hafði Íslandsbanki í tvígang neitað að gerður hafði verið sölutryggingarsamningur við Byr í bréfum til Hróbjarts. Fréttastofa hefur hins vegar samninginn undir höndum. Þar segir orðrétt:

Sölutryggingin felur í sér sölurétt af hálfu Byrs og kaupskyldu af hálfu Glitnis verði ákveðið að nýta sölutrygginguna.

Aldrei kom þó til hennar þar sem bankinn fékk stofnfjáreigendur til þátttöku í útboðinu og ákveðið var að hafa útboðið upp á 23 milljarða í stað 30. Sumir tóku lán hjá Glitni eða öðrum bönkum og aðrir staðgreiddu. Það skýrir þó hvers vegna Glitnir gekk á eftir stofnfjáreigendum með grasið í skónum og eyddi miklu púðri í að sannfæra þá um að taka lán fyrir útboðið með veði í stofnfjárbréfunum sjálfum. Bankinn hafði ríkra hagsmuna að gæta.

„Með því að lána þá komst hann undan sölutryggingunni sinni og það var betra fyrir bankann að lána á þeim forsendum að áhætta hans væri bara bundin við stofnbréfin heldur en að þurfa að standa í því að kaupa stofnbréf í Byr fyrir hugsanlega 20 milljarða. Það liggur bara í augum upp, " segir Hróbjartur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×