Innlent

Tveir milljónaþjófar handteknir

Mennirnir stálu öllu sem hönd á festi, mest þó verkfærum. Mynd úr safni.
Mennirnir stálu öllu sem hönd á festi, mest þó verkfærum. Mynd úr safni.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið tvo menn sem reyndust hafa á samviskunni innbrot í tólf fyrirtæki og geymslustaði verktaka í Hafnarfirði og Garðabæ. Talsverð eignaspjöll voru unnin á mörgum innbrotsstaðanna sem allir eru í sama hverfinu.

Mikið af þýfi fannst hjá mönnunum og telur lögregla að hún hafði náð mestöllu af því sem þeir stálu. Verðmæti þess er áætlað í kringum sex milljónir króna, að sögn lögreglu.

Mennirnir tveir sem báðir eru komnir undir þrítugt brutust inn í fyrirtækin og geymslustaðina á tveggja mánaða tímabili. Þar létu þeir greipar sópa og virðast ekki hafa valið úr. Þannig fundust hjá þeim skærbleikar snyrtitöskur í bland við rándýr verkfæri. Þýfið höfðu þeir falið í skúrum og geymslum sem þeir höfðu aðgang að. Því hefur að mestu leyti verið komið í hendur eigenda.

Mönnunum var sleppt að yfirheyrslum loknum og telst málið upplýst. Þeir hafa komið við sögu hjá lögreglu áður, einkum þó annar þeirra, vegna fíkniefna- og þjófnaðarmála. - jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×