Íslenski boltinn

Valskonur unnu toppslaginn á móti Stjörnunni

Óskar Ófeigur Jónsson á Vodafonevellinum skrifar
Mynd/Daníel
Mynd/Daníel
Valskonur urðu fyrstar til að taka stig af Stjörnukonum í Pepsi-deild kvenna í sumar þegar þær unnu 2-1 sigur í toppslagnum á Hlíðarenda í kvöld. Valur komst með sigrinum í toppsætið deildarinnar en Eyjaliðið fær tækifæri til að endurheimta það í Kópavoginum á morgun.

Stjarnan hafði unnið Valsliðið tvisvar á undirbúningstímabilinu og var með fullt hús fyrir leikinn á sama tíma og Íslandsmeistarar Vals töpuðu tveimur stigum í Árbænum í leiknum á undan.

Mist Edvardsdóttir kom aftur inn í byrjunarlið Vals og þakkaði fyrir sig með því að skora fyrsta markið eftir hálftíma leik með skalla eftir hornspyrnu Hallberu Guðnýju Gísladóttur. Kristín Ýr Bjarnadóttir kom Val síðan í 2-0 á 66. mínútu með glæsilegum skalla eftir fyrirgjöf frá Thelmu Björk Einarsdóttur.

Hin eldfljóta Ahkeelea Mollon minnkaði muninn í fjórðu mínútu í uppbótartíma eftir skyndisókn og stungusendingu frá Kristrúnu Kristjánsdóttir en markið kom alltof seint.

Stjörnuliðið byrjaði báða hálfleiki af krafti en það var ekki nóg. Valsliðið gaf fá færi á sér, vann sig síðan inn í leikinn og landaði mikilvægum sigri í toppbaráttunni.

Sóknarleikur Stjörnunnar var ekki nærri nógu beittur og þær féllu á stóru prófi í kvöld. Það er þó nóg eftir að sumrinu en Valskonum er örugglega létt að ná að vinna dýrmætan sigur eftir tvo slaka leiki í upphafi móts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×